Heimilið okkar

 

Vorið er komið í Kaupmannahöfn og höfum við síðustu daga notið þess til hins ýtrasta áður en við höldum síðan heim til Íslands yfir sumarið. Ferðirnar niður á strönd hafa aukist töluvert hvort sem það er í hlaupaskónum eða með hvítvínsflösku og góða bók og ferðir á blómamarkaði bæjarins sömuleiðis, sérstaklega þar sem íbúðin er loksins orðin verkefnalaus ( í bili allavega). 

Okkur vantar vissulega enn nokkra hluti sem við erum þó lítið að stressa okkur á, enda kemur það með tímanum. Mig myndi langa að hengja upp nokkrar myndir til viðbótar en vil þó ekki ana út í að kaupa það fyrsta sem ég sé enda finnst mér gaman að hafa verk sem eru oft einstök, persónuleg og jafnvel pínu óvenjuleg. 

Það sama má segja um heimilið sjálft. Ég hef mikla unun af því að finna fallega hluti og húsgögn fyrir heimilið en á sama tíma vil ég þó að það sé persónulegt og geti ef til vill sagt aðeins til um karakter þeirra sem á heimilinu búa. Það er oft mikið talað um hvað heimili Íslendinga eru oft einsleit og það vanti oft allan karakter og persónulega sköpun. Halla Bára innanhússhönnuður kom vel inn á þetta með þessari grein þar sem hún fjallar um frumleika. Þegar ég var sjálf að skrifa fyrir Hús og híbýli kom þetta ansi oft upp, það reyndist einfaldlega þrautinni þyngra að finna heimili sem litu ekki nákvæmlega eins út og önnur heimili sem höfðu nú þegar birst í blaðinu. Oft þegar ég varpaði fram þeirri spurningu hvaðan viðmælendur sóttu innblástur var svarið oftar en ekki „Á Instagram“ og svarið var alls ekkert frábrugðið mínu eigin enda er það einfaldlega vettvangur sem er bæði einfaldur í notkun og auðveldur að nálgast, en býður oftar en ekki upp á mikla einsleitni.  

0B.jpg

Ég hef því mjög meðvitað hugsað um þetta í okkar ferli. Ég hef alveg keypt ýmislegt sem margir aðrir hafa líka gert en að mínu mati er mikilvægt að vanda valið og velja það sem höfðar til þín hverju sinni til að halda í persónulega sköpun. Ég vildi passa upp á að fylgja ekki bara þeirri tískubylgju sem er í gangi núna heldur að velja hluti og húsgögn sem eru klassísk og koma til með að fylgja okkur í gegnum ófáar tískubylgjurnar á komandi árum. Að heimilið lýsi persónuleika okkar aðeins og sé samansett af hlutum sem lætur okkur líða vel hvort sem það er vegna nota - eða fegurðargildis, að þetta sé án efa heimilið okkar.